Stjórnendur Hótels Ísafjarðar hafa ákveðið að skjóta skjólshúsi yfir þá íbúa Vestfjarða sem hafa lent í hrakningum vegna ástandsins á svæðinu. „Á svona stundum þurfa allir að standa saman,“ segir Daníel Jakobsson, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar og formaður bæjarráðs.
Eins og greint var frá í morgun var tekin ákvörðun um að rýma fjögur hús í Seljalandshverfi á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Fjögur hús voru jafnframt rýmd á Suðureyri og þá voru íbúar í efstu húsum á Flateyri beðin um að yfirgefa hús sín. Allt þetta fólk getur fengið inni á hótelinu.
Daníel segir fáa ferðamenn á Ísafirði þessa stundina eins og gefur kannski að skilja; veðrið hefur verið vont að undanförnu, ófært og vegir lokaðir. Af þeim sökum er nóg af lausum herbergjum á hótelinu, þar sem hraktir Vesfirðingar geta hvílt lúin bein og fengið eitthvað í gogginn.
Þegar Vísir náði á Daníel var hann staddur um borð í varðskipinu Þór á leið til Flateyrar, að rækja skyldur sínar sem formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Hann segir að hótel Ísafjörður standi þó opinn í fjarveru hans því eiginkona hans, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, verður á vaktinni á hótelinu.
Blásið hefur verið til aukafréttatíma í hádeginu í dag á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni. Útsendingin hefst klukkan tólf og verður hægt að nálgast útsendinguna hér.
