Svo virðist sem listi yfir væntanlega þátttakendur í Söngvakeppni sjónvarpsins hafi verið birtur á Spotify en opinberun listans er ekki á dagskrá RÚV fyrr en í kvöld. Vinsæla Eurovision aðdáenda- og fréttasíðan Wiwiblogs málar það þannig upp að listanum hafi verið lekið.
Samkvæmt dagskrá RÚV átti að birta listann í kvöld í sérstökum kynningarþætti en meðal þeirra sem eru á listanum eru Daði Freyr, DIMMA, Elísabet og Matti Matt.
Daði Freyr og hljómsveitin hans, Gagnamagnið, kepptu í íslensku undankeppninni árið 2017 og hafnaði í öðru sæti en lag hans í ár virðist bera titilinn Gagnamagnið í höfuðið á hljómsveitinni. Matti Matt hefur einnig keppt áður en hann var í sveitinni Vinir Sjonna sem keppti fyrir hönd Íslands árið 2011.
Spilunarlistinn er ekki aðgengilegur hér á Íslandi og því ekki hægt að hlusta á lögin en hægt er að sjá hverjir flytja þau og hvað lögin heita. Svo virðist sem búið sé að undirbúa sex laganna á ensku en keppendur geta valið hvort þeir syngi lögin á ensku í Eurovision.
Listi yfir keppendur í Söngvakeppninni birtur
