Samfylkingin og Vinstri græn tapa fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup á meðan aðrir flokkar standa í stað eða bæta við sig fylgi frá síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í könnuninni með tæplega 23 prósent stuðning. 47 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja ríkisstjórnina. Gallup framkvæmdi könnunina dagana 2. desember 2019 til 1. janúar 2020.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 22,7 prósent fylgi í könnuninni. Flokkurinn var vinsælastur í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi Bjarna Benediktssonar, samkvæmt frétt RÚV. Minnstur stuðningur við flokkinn er í Norðausturkjördæmi þar sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra er oddviti.

Samfylkingin mælist með 13,9 prósent sem er lækkun frá síðustu könnun . Miðflokkurinn fær 12,7 prósent atkvæða á landsvísu og fær mestan stuðning í Norðausturkjördæmi. Viðreisn fékk 12 prósent, Píratar 11,3 prósent og Vinstri græn mældust með 10,7 prósent. Framsóknarflokkurinn mældist með 8,6 prósent í þessum Þjóðarpúlsi, Flokkur fólksins með 4,3 of Sósíalistaflokkurinn 3,3.
Stuðningur við ríkisstjórnina er 47 prósent, þremur prósentum lægra en í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup. Samanlagður stuðningur við ríkisstjórnarflokkana þrjá er þó 42 prósent.