Losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum dróst saman um 2,1% í fyrra samkvæmt mati einkarekinnar ráðgjafastofu. Samdrátturinn er rakinn nær alfarið til hríðminnkandi kolanotkunar sem hefur ekki verið minni í rúm fjörutíu ár.
Notkun á kolum dróst saman um 18% í Bandaríkjunum í fyrra borið saman við árið áður þegar hún jókst nokkuð. Ekki hefur verið minna brennt af kolum í landinu frá árinu 1975 samkvæmt mati Rhodium-hópsins sem Washington Post segir frá. Vaxandi losun vegna bruna á ódýru jarðgasi vó að miklu leyti upp á móti samdrættinum í kolum og losun frá samgöngum stóð nánast í stað. Meira var losað frá byggingum, iðnaði og öðrum þáttum hagkerfisins í fyrra en árið áður.
Trevor Houser, yfirmaður orku- og loftslagsteymis Rhodium-hópsins, segir að þrátt fyrir að losun frá orkuframleiðslu hafi aldrei minnkað jafnmikið og í fyrra stefni í að Bandaríkin nái hvorki markmiðum sem sett voru á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 2009 né í Parísarsamkomulaginu nema veruleg stefnubreyting eigi sér stað á næstunni.
Bandaríkin settu sér það markmið að draga úr losun árið 2005 um 17% með samkomulagi sem var gert í Kaupmannahöfn fyrir áratug. Í fyrra var losunin 12% minni en árið 2005. Það er ennfremur víðsfjarri þeim 26-28% samdrætti sem Bandaríkin ætluðu að ná fyrir 2025 samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
Að óbreyttu ganga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu skömmu eftir forsetakosningarnar í nóvember samkvæmt ákvörðun Donalds Trump forseta. Ríkisstjórn hans hefur jafnframt unnið að því að veikja og afnema reglugerðir og aðgerðir sem áttu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni.
Um 11% af heimslosun á gróðurhúsalofttegundum kemur frá Bandaríkjunum. Losun þeirra jókst um 2,7% árið 2018 miðað við árið á undan. Í fyrra var losun Bandaríkjanna nokkuð hærri en hún var undir lok árs 2016.
Minni losun í Bandaríkjunum vegna samdráttar í kolanotkun

Tengdar fréttir

Október sá næst heitasti frá upphafi mælinga
Síðasti mánuður var næst heitasti októbermánuðurinn á jörðinni frá því að mælingar hófust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) sem byggir á gögnum sem ná aftur til ársins 1880.

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu nær nýjum hæðum
Styrkur koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu náði nýjum hæðum á árinu 2018. Þetta sýnir skýrsla Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Evrópuþingið lýsir yfir „neyðarástandi í loftslagsmálum“
Meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu samþykkti í morgun yfirlýsingu þar sem "neyðarástandi í loftslagsmálum“ er lýst yfir.

Önnur ríki harma uppsögn Bandaríkjanna á Parísarsamkomulaginu
Bandaríkin eru einn stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum og fór losun þar vaxandi í fyrra.

Guterres ósáttur við aðgerðaleysi sumra ríkja
Fulltrúar nærri 200 ríkja eru mættir á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Madríd í dag. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði viðbrögðin við loftslagsvánni hafa valdið sér vonbrigðum.