Vegna efnagsburða Kína er ríkið að mörgu leyti öflugari andstæðingur Bandaríkjanna en Sovétríkin voru á sínum tíma. Þetta sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Tékklandi í dag þar sem hann kallaði eftir samstöðu Evrópuríkja með Bandaríkjunum. Saman gætu þessir aðilar spornað gegn auknum áhrifum Kommúnistaflokks Kína.
Í ræðu á öldungadeildarþingi Tékklands í dag sagði Pompeo einnig að heimurinn væri ekki að upplifa „kalda stríðið 2,0“.
„Kommúnistaflokkurinn er þegar samvofinn efnahögum okkar, stjórnmálum okkar, samfélögum okkar á þann hátt sem Sovétríkin voru aldrei,“ sagði Pompeo, samkvæmt frétt Reuters.
Great visiting Czech Prime Minister Babiš in Prague today. We are a proud Ally and partner of the Czech Republic, whose contributions are critical to the peace, stability, and prosperity of Europe. pic.twitter.com/hnuYH9dK9d
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) August 12, 2020
Yfirvöld í Kína hafa kvartað yfir því að ríkisstjórn Donald Trump sé að nota ríkið til að mála skrattann á vegginn fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna í nóvember.
Samband Bandaríkjanna og Kína hefur þó farið versnandi um nokkuð skeið og þá meðal annars vegna málefna Hong Kong, tilkalls Kína til Suður-Kínahafs, njósna og umsvifa tæknifyrirtækisins Huawei.
Strax í upphafi ársins 2018 gaf Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna út nýja varnarstefnu ríkisins þar sem mikil áherlsa var lögð á að sporna gegn áhrifum Kína og Rússlands.