Þeir tveir einstaklingar sem greindust með kórónuveirusmit á Íslandi síðasta sólarhringinn eru báðir búsettir í Vestmannaeyjum. Að sögn lögreglunnar þar voru þeir báðir í sóttkví þegar smit þeirra var staðfest.
Íslensk erfðagreining mun skima Eyjamenn fyrir veirunni vegna hópsýkingar sem kom upp í Vestmannaeyjum. Nokkurn fjölda smita síðustu daga hefur mátt rekja til Eyja, ekki síst til skemmtanahalds um verslunarmannahelgina. Þrátt fyrir að þar færi ekki fram nein formleg dagskrá var nokkur fjöldi á Heimaey yfir helgina, meðal annars fólk sem heimsótti vini og ættingja.
Í Vestmannaeyjum eru nú fjórir einstaklingar í einangrun og 78 í sóttkví. Þá segir lögreglan einn einstakling hafa lokið sóttkví. Sjúklingurinn sem nú er á gjörgæsludeild er jafnframt einn þeirra einstaklinga sem heimsóttu Eyjar um verslunarmannahelgina og greindust svo smitaðir af Covid-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur.