Sparisjóður Strandamanna hefur gripið til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að innheimta í tengslum við smálánastarfsemi fari fram í gegnum reikninga sjóðsins. Viðskiptasambönd við viðskiptavini sem koma að smálánastarfsemi hafa verið skoðuð og einhverjum hefur verið sagt upp.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sparisjóðnum en fyrr í vikunni var greint frá því að Sparisjóðurinn veitti innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu ehf. aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Þannig hafi ólögleg smálán verið innheimt í gegnum reikning sparisjóðsins.
Neytendasamtökin gagnrýndu viðskiptasamband sparisjóðsins við innheimtufyrirtækið og sögðust ítrekað hafa krafist svara um framhald þessa viðskiptasambands. Sögðu þau sparisjóðinn styðja við „skipulagða brotastarfsemi smálánafyrirtækja“ með þessu.
Sparisjóður Strandamanna fullyrðir að útgreiðsla smálána hafi aldrei verið heimil í gegnum sparisjóðinn, hvorki í gegnum „bankareikninga eða öpp með tengingar við Sparisjóðinn“.
„Sparisjóður Strandamanna var stofnaður 1891, Sjóðurinn hefur alla tíð eða í tæp 130 ár sýnt samfélagslega ábyrgð og hyggst gera það hér eftir sem hingað til,“ segir í tilkynningunni.