Arnór Sveinn Aðalsteinsson, varnarmaður KR, efast um að hann verði lengi frá eftir meiðslin sem hann hlaut í jafnteflinu gegn Fjölni í gær.
Arnór Sveinn fór af velli sjö mínútum fyrir leikslok í gær en hann var borinn af velli eftir að hafa kastað sér fyrir skot Ingibergs Korts Sigurðssonar.
„Ég fékk þungt högg á lærið sem leiðir niður í hné en mesti áverkurinn sem ég er með er í lærinu,“ sagði Arnór í samtali við Vísi í dag.
„Þetta er „dead leg“ og þetta verða væntanlega bara nokkrir dagar sem ég er frá. Það er ólíklegt að þetta sé eitthvað meira en ég hitti sjúkraþjálfara í dag.“
Þetta er í annað sinn sem Arnór meiðist á tímabilinu. Hann missti af 3-0 tapinu gegn HK á heimavelli í 2. umferð.
„Þegar allt er undir þá hendir maður sér fyrir allt og ekkert og þá eru meiri líkur á að svona gerist,“ sagði Arnór.
KR er á toppnum þrátt fyrir jafnteflið í gær en Fjölnir er áfram í botnsætinu.