Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) hefur uppfært tölfræði Íslands yfir kórónuveirusmit á vef sínum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu munu ríki sem sett höfðu Ísland á áhættulista uppfæra lista sína nú í vikunni til samræmis.
Greint var frá því um helgina að heilbrigðisyfirvöld í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi og Lettlandi skikkuðu Íslendinga í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins. Hið sama gildir um íslenska ferðalanga í Slóveníu. Þjóðirnar miðuðu við upplýsingar frá EDCD, þar sem Ísland var skráð með yfir 17 tilfelli veirunnar á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu fjórtán daga. Þar var þó ekki greint á milli virkra og gamalla smita, sem ekki þótti gefa rétta mynd af stöðunni hérlendis.
Fram kom á upplýsingafundi almannavarna vegna veirunnar í gær að sóttvarnalæknir, sem og utanríkisráðuneytið, væru að beita sér fyrir því að þessu yrði breytt. Í gær birtist jafnframt ný tölfræði yfir svokallað nýgengi smita á Covid.is, þ.e. virk smit síðastliðna 14 daga á hundrað þúsund íbúa. Í gær stóð sú tala í 1,91.
Síðdegis í gær voru þessar tölur uppfærðar á vef ECDC og er Ísland nú skráð með nýgengið 2.0. Líkt og áður segir er viðbúið að Eistland, Lettland og Slóvenía aflétti sóttkvíarkvöðinni af íslenskum ferðalöngum í samræmi við uppfærðar tölur nú í vikunni, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Átta eru í einangrun með virk smit á Íslandi, samkvæmt tölum á Covid.is í gær. Alls hafa átján virk smit sem rakin eru til útlanda greinst frá því að skimun hófst við landamærin 15. júní. Talsvert fleiri, eða 92, hafa greinst með gömul smit.