Innlent

Óðsmanns æði að vera á ferðinni undir bröttum hlíðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur visir/auðunn

Veðurfræðingur segir óðsmanns æði að vera á ferð undir bröttum hlíðum á Norðurlandi vegna mikillar úrkomu síðastliðinn sólarhring. Jarðvegur er gegnsósa af vatni og skriður þegar teknar að falla. Úrkoma á Siglufirði síðan í gær jafnast á við rúman fjórðung af ársúrkomu í Reykjavík.

„Það er búið að rigna óhemju mikið á Norðurlandi í nótt og frá því í gærkvöldi. Mér reiknast til að á Siglufirði séu komnir hvorki meira né minna en 222 millimetrar frá því snemma í fyrri nótt og þar til klukkan níu í morgun,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

„222 millimetrar eru rúmlega fjórðungur af ársúrkomu Reykjavíkur.“

Hann segir þetta svakalega rigningu.

„Jarðvegur er gegnsósa víða á Norðurlandi og skriður teknar að falla. Til dæmis í Laxárdal. Í raun og veru er óðsmanns æði að vera ferðinni undir bröttum hlíðum þegar svona er. Það geta komið spíur og jafnvel stærri skriður þegar svona háttar til alveg þar til þessu veðri slotar.“

Einar segir að dregið hafi úr ákefð rigningarinnar.

„Það verður áfram samfelld rigning og mikil rigning á Norðurlandi og sérstaklega múlunum sem standa við sjóinn og þetta lagast ekki fyrr en á morgun.“

Hann segir óvenjulega lægð hafa fært þessa úrkomu til landsins.

„Þetta er í kjölfari á henni. Þetta þekkist nú alveg hér en er ekki algengt í seinni tíð að fá svona miklar rigningar um hásumar með norðanátt. Ég held að það megi segjast að þetta sé með því mesta sem má sjá við svona aðstæður.“

Þessi vindstrengur mun færast yfir Austurlandið í fyrramálið. Skeinuhættar hviður verða þar frá Breiðamerkursandi, austur um á firði og austur í Jökulsárhlíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×