Rétt fyrir klukkan sex í morgun varð skjálfti af stærðinni 4,1 um fjóra kílómetra norður af Grindavík. Tveimur mínútum áður mældist skjálfti af stærðinni 3,2 á sama svæði, eða um 3,6 kílómetra norður af Grindavík.
Skjálftarnir fundust báðir í Grindavík og Reykjanesbæ að því er fram kemur í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands.
Enn mælast minni skjálftar á svæðinu og eru líkur á að fleiri stærri skjálftar fylgi í kjölfarið. Um 40 eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu hingað til.
Skjálftavirknin hefur verið viðvarandi á svæðinu í kringum Grindavík eftir að landris hófst á Reykjanesskaganum í janúar og var lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna þess.
Síðasti skjálfti sem fór yfir 3 að stærð varð þann 9. júlí þegar skjálfti af stærðinni 3,3 mældist norðaustur af Grindavík.