Sex mörk voru skoruð í leikjunum tveimur í Pepsi Max-deild karla í gær. Leikirnir unnust báðir á útivelli.
Eftir tvö töp í röð vann Víkingur HK með tveimur mörkum gegn engu. HK-ingar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í Kórnum á þessu tímabili.
Viktor Örlygur Andrason kom Víkingi yfir á 26. mínútu með afar skrautlegu marki. Sigurður Hrannar Björnsson, markvörður HK, misreiknaði þá aukaspyrnu Viktors all svakalega og boltinn endaði í fjærhorninu.
Á 65. mínútu kom Óttar Magnús Karlsson gestunum í 0-2 með föstu skoti í stöng og inn. Þetta var sjötta mark hans í sumar en hann er markahæstur í Pepsi Max-deildinni ásamt Dönunum Patrick Pedersen og Thomas Mikkelsen.
ÍA gerði góða ferð á Seltjarnarnesið og vann 0-4 sigur á nýliðum Gróttu. Öll mörkin komu á fyrstu 34 mínútum leiksins.
Viktor Jónsson kom Skagamönnum yfir á 4. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Halls Flosasonar. Á 13. mínútu jók Stefán Teitur Þórðarson muninn í 0-2 með sínu þriðja deildarmarki í sumar.
Fimm mínútum síðar var staðan orðin 0-3 eftir fyrsta mark Brynjars Snæs Pálssonar í efstu deild. Viktor skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark ÍA á 34. mínútu. Með sigrinum komust Skagamenn upp í 2. sæti deildarinnar.
Mörkin úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild karla má sjá hér fyrir neðan.