Stjörnumenn heimsækja í kvöld Valsmenn á Origo völlinn á Hlíðarenda og hefst leikurinn klukkan 19.15.
Stjörnuliðið hefur aðeins spilað tvo leiki á tímabilinu en er eina liðið í deildinni sem er með fullt hús því Stjarnan vann báða leikina sem voru á móti Fylki (2-1) og Fjölni (4-1).
Síðasti leikur Stjörnunnar fór fram klukkan 16.45 á sunnudeginum 21. júní eða fyrir rúmum þremur vikum.
Skagamenn spiluðu ekki leik sinn í annarri umferðinni fyrr en klukkan 19.15 þetta sama kvöld eða eftir að leik Stjörnunnar lauk.
Skagamenn spiluðu síðan leik sinn í sjöttu umferðinni í gær þegar þeir unnu 4-0 sigur á nýliðum Gróttu á Seltjarnarnesi.
Þetta þýðir að Skagaliðið náði að spila fimm leiki í Pepsi Max deildinni á milli leikja Stjörnuliðsins.
Skagamenn fengu þrjú stig í fyrstu umferðinni og bætti síðan við sjö stigum í þessum fimm leikjum sem þeir spiluðu á meðan Stjarnan var í óumbeðnu fríi frá deildinni.
Stjörnumenn hafa leikið fjórum leikjum færra en ÍA þegar kemur að leiknum á Hlíðarenda í kvöld og eru núna fjórum stigum á eftir Skagamönnum.
Leikir Skagamanna á milli leikja Stjörnunnar:
- 2-1 tap á móti FH 21. júní
- 2-1 tap á móti KR 28. júní
- 4-1 sigur á Val 3. júlí [+3 stig]
- 2-2 jafntefli á móti HK 8. júlí [+1 stig]
- 4-0 sigur á Gróttu 12. júlí [+3 stig]