Bandaríska leikkonan og fyrirsætan Kelly Preston er látin 57 ára að aldri.
Bandaríski leikarinn John Travolta, eiginmaður Prestons, greindi frá andláti hennar á samfélagsmiðlum. Hún hafi látist árla morguns 12. júlí úr brjóstakrabbameini. Preston glímdi við veikindin í tvö ár.
Preston lék í fjölmörgum kvikmyndum og þáttaröðum en hún er þekktust fyrir frammistöðu sína í Mischief (1985), Twins (1988) og Jerry Maguire (1996). Preston fæddist 13. október 1962 í höfuðborg Hawaii en réttu nafni hét hún Kelly Kamalelehua Smith.
Hún skilur eftir sig eiginmann og börnin Ellu og Benjamin. Þriðja barn hjónanna, Jett, lést 16 ára að aldri í janúar 2009.
Í færslu Travolta segist hann ætla að verja næstu mánuðum fjarri sviðsljósinu til að hlúa að börnum sínum sem hafi nú misst móður sína. Hann finni þó ástina og hlýjuna frá fólkinu allt um kring sem muni hjálpa fjölskyldunni að ná áttum eftir fráfall Prestons.