Innlent

Síma­mótið spilað á 37 völlum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og ungmennaráðs Breiðabliks.
Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og ungmennaráðs Breiðabliks. Stöð 2

Símamótið fer fram í Kópavogi á morgun og um helgina. Að hámarki fimm hundruð manns mega koma saman í einu samkvæmt sóttvarnareglum en von er á tæplega 2500 þátttakendum á mótinu. Þeim fylgja þó foreldrar, dómarar og aðrir gestir.

Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og ungmennaráðs Breiðabliks, segir að mikill undirbúningur hafi farið í að tryggja að reglum verði fylgt á mótinu. „Fyrir það fyrsta þá leggjum við mikla áherslu á það að foreldrar sem fylgja börnunum sínum hingað fari eftir þeim fyrirmælum sem við erum búin að leggja upp varðandi þetta mót.“

„Í annan stað þá erum við að spila mótið á 37 völlum og getum þar af leiðandi sett fimmta flokk niður í Fagralund, sjöunda flokk hingað á Kópavogsvöll og Smárahvammsvöll og sjötta flokk í tvö aðskilin hólf hér á Blikavöllum og Fífuvöllum,“ segir Jóhann.

Þá verður matsalnum skipt í þrjú hólf fyrir þessa þrjá flokka með þremur aðskildum inngöngum. „Þannig náum við að halda þeim foreldrum sem fylgja börnunum aðskildum,“ bætir Jóhann við.

Eins og áður hefur komið fram eru börn á leik- og grunnskólaaldri ekki talin í áhættuhópi og því gilda fjöldatakmarkanir ekki um þau.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×