Björgvin Víkingsson tekur við starfi forstjóra Ríkiskaupa 1. september næstkomandi. Hann var einn 34 umsækjenda um starfið en þrír drógu umsókn sína til baka, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.
Eins og Vísir greindi frá á sínum tíma voru ýmsir þjóðþekktir á meðal umsækjenda; eins og Ari Matthíasson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, Björgin G. Sigurðsson, Tryggvi Harðarson og Höskuldur Þórhallson fyrrverandi alþingismenn, Björn Óli Ö Hauksson fyrrverandi forstjóri Isavia, Björn H. Halldórsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu og Sólmundur Már Jónsson fyrrverandi mannauðs- og rekstrarstjóra Hafrannsóknarstofnunar.
Sem fyrr segir varð Björgvin fyrir valinu en hann er með meistaragráðu í aðfangakeðjustjórnun frá Swiss Federal Institute of Technology og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands.
Hann hefur starfað við innkaup og vörustjórnun hjá fyrirtækjum á borð við Maersk, Aasted Aps, DT Group og Marel hf. Þá hefur Björgvin jafnframt haldið vinnustofur og kennt vörustjórnun og stefnumarkandi innkaup við Háskólann í Reykjavík.
Þar að auki er Björgvin, eða var í það minnsta, liðtækur spretthlaupari. Hann setti t.a.m. Íslandsmet í 400 metra grindahlaupi árið 2008.