Erlent

Norðmenn loka landamærunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Aðgerðirnar taka gildi næsta mánudag.
Aðgerðirnar taka gildi næsta mánudag. Vísir/EPA

Norsk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að loka flugvöllum og höfnum í landinu til þess að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar. Einnig verður gripið til strangrar landamæragæslu.

Þetta kom fram í ávarpi Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, fyrr í dag. Aðgerðirnar taka gildi næstkomandi mánudag og hefur hún óskað eftir því að norski herinn muni framfylgja hertu landamæraeftirliti.

Fréttastofa norska ríkisútvarpsins greinir frá þessu en Solberg lagði áherslu á að Norðmenn sem væru staddir erlendis gætu samt sem áður snúið aftur heim.

Solberg fullvissaði landsmenn um það að aðgerðirnar ættu ekki að hamla innflutningi á vörum á borð við lyf og matvæli.

Eftir að takmarkanirnar taka gildi verður erlendum ríkisborgurum ekki heimilt að fljúga til landsins nema þeir hafi „góða ástæðu“ til þess, eins og það er orðað í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Þá mæla stjórnvöld gegn því að Norðmenn fari í óþarfa ferðir til útlanda og hvetja þá sem eru staddir erlendis til þess að snúa aftur heim.

Síðasta fimmtudag gáfu norsk stjórnvöld út tilmæli um að allir sem hafi ferðast utan Norðurlandanna þyrftu að fara í sóttkví við komuna til Noregs. Einnig var skólum á öllum stigum lokað.


Tengdar fréttir

Norðmenn loka skólum

Yfirvöld í Noregi hafa ákveðið að grípa til þess ráðs að loka skólum og leikskólum í stærstu borgum landsins frá og með 16. mars vegna kórónuveirunnar.

Danir loka landinu

Dönskum landamærum verður lokað á hádegi á morgun til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×