Nú hafa verið gerðar ákveðnar reglubreytingar í Eurovision sem fram fer í Rotterdam í maí á næsta ári.
Hingað til hefur reglan verið að aðeins sex einstaklingar megi vera á sviðinu í einu og bakraddir verða að vera viðstaddar á sviðinu og syngja með.
Tónlistin sjálf hefur verið tekin upp fyrirfram og allur söngur hefur þurft að vera í beinni útsendingu.
Nú má aftur á móti mæta í keppnina stóru með fyrirfram uppteknar bakraddir og eru þar engar fjöldatakmarkanir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eurovision og er þetta gert til að gera þjóðunum kleift að senda færri út með hverju atriði.
Í raun gæti hver þjóð haft heilan kór í bakröddum, svo lengi sem það er tekið upp fyrirfram.
Aftur á móti er ekki gert nein krafa um að bakraddir séu teknar upp fyrirfram.