Þrír hælisleitendur og þrír Rúmenar, sem lögregla lýsti eftir í gær, bættust í hóp þeirra sem dvelja í farsóttahúsinu á Rauðarárstíg. Þar dvelja nú sautján manns.
Um fjórtán hundruð manns komu til landsins í gær í gegn um Keflavíkurflugvöll en um ellefu hundruð manns í fyrradag.
Þrír Rúmenar, sem lögregla lýsti eftir í gær, gáfu sig fram við lögreglu skömmu síðar. Þeir voru fluttur í farsóttahúsið á Rauðarárstíg. Þar dvöldu fyrir ellefu Rúmenar en hluti hópsins var handtekinn á Selfossi um síðustu helgi vegna þjófnaðar. Tveir þeirra reyndust smitaðir af Covid-19 og hinir brutu reglur um sóttkví.
Þá komu þrír hælisleitendur til landsins í gær og sóttu um alþjóðlega vernd. Nýtt verklag hefur tekið gildi hvað varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd við komuna til landsins. Þeir eiga að fara í sýnatöku við komuna og dvelja svo í farsóttahúsi í fimm til sjö daga. Þá fara þeir aftur í sýnatöku og ef það próf reynist neikvætt fara þeir í búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar. Þeir sem komu til landsins í gær dvelja nú í farsóttahúsinu.
Þannig það gilda í raun aðrar reglur um þá?
„Þetta er fólk í viðkvæmri stöðu og þess vegna viljum við tryggja öryggi þeirra og höfum valið að fara þessa leið að þeir fari ekki í þessi almennu úrræði á vegum Útlendingastofnunar heldur er haldið sér í sóttkví þannig að þeir hafa aðgang að heilbrigðisstarfsfólki og annað,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Þá þurfi að huga að öðrum hælisleitendum sem dvelja í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar.
„Þar dvelst fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma og flokkast sem viðkvæmir hópar í okkar skilgreiningum varðandi Covid-19. Þess vegna þurfum við að fara sérstaklega varlega,“ segir Víðir.
Í apríl og maí sóttu níu manns um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af aðeins tveir sem ekki höfðu sótt áður um vernd eða verið með dvalarleyfi á Íslandi eða fæddust hér á landi á þessu tímabili.