Tvö ný smit greindust milli sólarhringa og eru því fjögur virk smit hér á landi. Tveir náðu bata milli sólarhringa.
Því hafa alls 1.810 greinst með kórónuveiruna hér á landi og 1.796 náð bata. Tíu hafa látist af völdum veirunnar.
Smit greindust í tveimur mönnum sem handteknir voru á föstudag. Þeir höfðu komið hingað til lands fyrr í vikunni og áttu því að vera í sóttkví þegar þeir voru handteknir. Sextán lögreglumenn eru nú í sóttkví vegna málsins.
Fjórir eru í einangrun eins og er og 613 eru í sóttkví en þeim fækkar töluvert á milli daga. Í gær voru 769 í sóttkví. Alls hafa 21.831 lokið sóttkví.
Enginn liggur á sjúkrahúsi vegna veirunnar eins og er.