Innlent

Von á nokkur hundruð far­þegum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Nokkur hundruð farþegar koma með sjö flugvélum til landsins á mánudag þegar skimanir hefjast á flugvellinum.
Nokkur hundruð farþegar koma með sjö flugvélum til landsins á mánudag þegar skimanir hefjast á flugvellinum. visir/Vilhelm

Von er á nokkur hundruð farþegum í sjö flugvélum á mánudag þegar nýjar reglur vegna komu ferðamanna taka gildi og skimun vegna kórónuveirunnar hefst í Keflavík. Flestir koma frá Kaupmannahöfn og þá helst Íslendingar að koma heim í frí.

Samkvæmt flugáætlun er von á sjö flugvélum til Keflavíkur á mánudag. Fyrstu farþegarnir sem verða skimaðir á vellinum koma með vél SAS frá Kaupmannahöfn og lenda um klukkan hálf ellefu. Aðrar vélar koma frá Osló, Færeyjum, Stokkhólmi og Frankfurt í Þýskalandi.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn segir, flugfélögin renna blint í sjóinn með flugframboðið. Áhuginn sé þó meiri en reiknað var með eftir að áætlanir um opnun voru fyrst kynntar.

„Þá fyrst voru ekki nema þrjár vélar á áætlun en sætanýtingin í þessum vélum er afskaplega lág og við eigum ekki von á nema einhverjum hundruðum farþega á mánudaginn. Þannig það er gott að geta prufukeyrt þetta með minni hóp," segir Víðir.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkisrölgreglustjóra.Vísir/Vilhelm

Flestir koma frá Kaupmannahöfn, enda eru þrjár vélar þaðan á áætlun á mánudag.

„Það er töluvert mikið um Íslendinga sem eru að koma heim. Við höfum heyrt að þetta sé mikið af námsmönnum og fólki sem er að koma heim til Íslands í frí."

Greint var frá því á upplýsingafundi í gær að allir um borð í vélum á leið til landsins og á flugvellinum þurfi að bera andlitsgrímur. Á vellinum verða tíu sýnatökubásar og verður unnt að skima um tvö hundruð farþega á hverri klukkustund. Mest tvö þúsund manns á dag.

„Það verða framkvæmdar prófanir í dag og við erum líka búin að senda búnað á Akuereyri, Egilsstaði og á Reykjavíkurflugvöll. Svo er verið að taka til búnað sem verður notaður í kringum Norrænu," segir Víðir.

Sóttvarnarlæknir verður meðal annarra viðstaddur prófanir á flugvellinum klukkan tvö í dag. Víðir segir allt ganga samkvæmt áætlun.

„Það er verið að prófa allan vélbúnað og alla ferla. Hvort leiðirnar í gegnum flugstöðina séu skýrar. Ég reikna ekki með að það verði tekin sýni í dag en að öðru leyti gengið alla leið í prófunum," segir Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×