Greg Glassman, framkvæmdastjóri og stofnandi CrossFit, hefur nú sent frá sér afsökunarbeiðni vegna rasískra ummæla sem hann átti um George Floyd þegar hann svaraði færslu Institute for Health Metrics and Evaluation stofnunarinnar á Twitter.
Institute for Health Metrics and Evaluation var þar að lýsa því yfir að rasismi væri sannkallað heilbrigðisvandamál í kjölfar vakningarinnar í bandarísku þjóðfélagi eftir að blökkumaðurinn George Floyd lést í höndum lögreglu. Hann dó eftir að hvítur lögreglumaður lá með hné á hálsi hans í næstum því níu mínútur.
Svar Greg Glassman var hins vegar ömurlegt og óásættanlegt: „Það er FLOYD-19,“ skrifaði Greg Glassman með vísun í kórónuveiruna COVID-19.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Katrín Tanja Davíðsdóttir var miður sín vegna þessa og Anníe Mist Þórisdóttir tjáði sig einnig. Þá höfðu nokkrur úr hópi besta CrossFit fólks heims boðað það að þau myndu ekki keppa á heimsleikunum á meðan núverandi forysta CrossFit samtakanna væri í forsvari.
Toppfólk eins og Chandler Smith, Noah Ohlsen og Kristi Eramo O’Connell ætla ekki að keppa með óbreytta forystu. Það var því nauðsynlegt fyrir CrossFit samtökin að reyna að slökkva eldana en hvernig ný tilkynning Greg Glassman á eftir að fara í mannskapinn á eftir að koma í ljós.
Greg Glassman var í raun tilneyddur til að senda eitthvað frá sér og hann sendi frá sér tilkynningu í morgun.
„Ég, höfuðstöðvar CrossFit samtakanna og CrossFit samfélagið líðum ekki kynþáttafordóma. Ég gerði mistök með því að velja þessi orð mín í gær,“ skrifaði Greg Glassman.
„Ég er mjög leiður yfir þeim sársauka sem ég hef valdið fólki með þessu. Þetta voru hins vegar bara mistök hjá mér, ekki rasísk ummæli heldur mistök,“ skrifaði Greg Glassman.
Greg Glassman segist ekki hafa verið með kynþáttafordóma en nú er stóra spurningin hvort að þetta sé nóg. Hann hefur í það minnsta ollið CrossFit samtökunum miklu tjóni og á tíma þegar fleiri og fleiri stöðvar eru að hlaupast undan merkjum CrossFit samtakanna.
Framtíð CrossFit er því áfram í mikilli óvissu.