Erlent

Heimilið hangir á bláþræði en hundinum sem hvarf í skriðuna bjargað upp í þyrlu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ótrúlegt þykir að hundurinn hafi komist lífs af.
Ótrúlegt þykir að hundurinn hafi komist lífs af. Mynd/Samsett

Foreldar Tore Andre Pedersen Hagalid í Talvik í Noregi horfðu á eftir fjölskylduhundinum Raiju hverfa í gríðarmikla aurskriðu sem féll í sjóinn síðdegis í dag. Fjölskylduheimilið hangir á bláþræði við efri mörk skriðunnar en hundurinn fannst heill á húfi, og var bjargað upp í þyrlu.

Líkt og Vísir sagði frá fyrr í kvöld féll gríðarmikil jarðskriða, um 650 löng í haf út í Talvík við Altafjörð í Norður-Noregi í dag. Átta hús sópuðust með skriðunni út á haf. Á myndbandi má sjá hvernig gríðarstór fleki fer af stað og út í sjó. Töluvert eignartjón en svo virðist sem að enginn hafi slasast í skriðunni.

Í samtali við NRK segir Tore Andre að fjölskylda hans trúi ekki að björgunarmenn hafi komið auga á hundinn og að hann hafi sloppið tiltölulega óhultur en í myndbandi hér fyrir neðan má sjá augnablikið sem hundinum er komið til bjargar. Þau hafi talið nær öruggt að hundurinn hafi drepist í skriðunni.

„Það er algjörlega ótrúlegt að hún hafi sloppið og alveg ótrúlega ánægjulegt,“ sagði Tore Andre í samtali við NRK. Allt svæðið fyrir framan fjölskylduheimili Tore Andre er horfið og á myndum í frétt NRK má sjá hvernig húsið hangir á bláþræði við efri mörk skriðunnar.

Óvíst er hvenær fjölskylda hans getur snúið heim aftur en lögregla hefur varað við því að frekari skriður geti fallið á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×