Hvorki þýsk né frönsk stjórnvöld eru spennt fyrir því að bjóða Rússum aftur inn í hóp stærstu iðnríkja heims sem kalla sig G7. Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það „heilbrigða skynsemi“ að leyfa Rússum að slást aftur í hópinn.
Rússum var sparkað úr því sem þá var kallað G8-hópnum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014. Trump forseti hefur undanfarið talað fyrir því að bjóða þá aftur velkomna í hópinn, meðal annars á hitafundi G7-ríkjanna sem hann hleypti í bál og brand árið 2018.
„Ég efast um að það sé vit í því að búinn til nýjan bráðabirgðahóp,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, um hugmyndina í dag og bætti við að í ljós þyrfti að koma hvenær rétti tíminn væri til að hleypa Rússum aftur inn.
Svipuðu skilaboð koma frá skrifstofu Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Reuters-fréttastofan hefur eftir háttsettum embættismanni þaðan að Rússum hafi verið vísað úr samstarfinu af gildri ástæðu.
„Við teljum ekki að þær aðstæður hafi breyst í dag,“ segir embættismaðurinn sem sagði þó að finna yrði farveg til þess að hafa samskipti við rússnesk stjórnvöld.
Trump, sem verður gestgjafi fundar G7-ríkjanna síðar á þessu ári, sagði í dag að það lægi beinast við að bjóða Vladímír Pútín Rússlandsforseta aftur að borðinu. Þannig væri auðveldast að leysta ýmis mál.