Danska ferðaskrifstofan Primo Tours hyggst hefja leiguflug til Íslands og Færeyja frá Danmörku strax í lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram á vef danska miðilsins Syd TV í kvöld. Ferðaskrifstofan er ein sú fyrsta í Danmörku sem auglýsir áætlunarflug til útlanda nú í sumar.
Mette Frederiksen forsætisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi síðasta föstudag að landamæri Danmerkur verði opnuð fyrir ferðamönnum frá ákveðnum löndum nú í júní, þar á meðal Íslandi. Dönum verður hins vegar ráðið frá því að ferðast til annarra landa en Íslands, Þýskalands og Noregs til og með 31. ágúst.
Danskir fjölmiðlar slógu því þess vegna margir upp á föstudag að draumar dönsku þjóðarinnar um sólarlandaferðir nú í sumar væru að engu orðnir.
Danski miðillinn TV Syd greinir nú frá því í kvöld að ferðaskrifstofan Primo Tours, sem sérhæfir sig einkum í útgerð leiguflugvéla frá Jótlandi til suðrænna áfangastaða í Evrópu, hyggi á leiguflug strax í lok júní. Áfangastaðirnir séu öllu svalari en venjan er; nefnilega Ísland og Færeyjar.
Haft er eftir Bjarke Hansen forstjóra Primo Tours í frétt TV Syd að þegar ljóst hafi orðið að ekki væri hægt að bjóða upp á ferðir til hinna hefðbundnu áfangastaða fyrr en í fyrsta lagi 1. september hafi stjórnendur þurft að sníða sér stakk eftir vexti. Að endingu hafi tekist að teikna upp nýja flugáætlun á mettíma í samráði við hið færeyska Atlantic Airways.
Fyrstu ferðir eru á dagskrá 28. júní, að því er segir í frétt TV Syd. Beint flug verður frá flugvellinum í Billund til Íslands og Færeyja, tvisvar í viku til beggja áfangastaða í allt sumar, og munu vélarnar taka 180 manns í sæti.