Bayern Munich vann öruggan 5-0 sigur á Fortuna Düsseldorf í síðasta leik dagsins í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Liðið er nú með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar en Borussia Dortmund á leik til góða.
Mathias Jørgensen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark strax á 15. mínútu leiksins. Þegar hálftími var liðinn tvöfaldaði franski varnarmaðurinn Benjamin Pavard forystu gestanna og pólska markamaskínan Robert Lewandowski kom Bayern í 3-0 rétt fyrir hálfleik.
Sá pólski var aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks með sitt 29. deildarmark á tímabilinu í aðeins 27 leikjum. Það var svo hinn eldsnöggi Alphonso Davies sem skoraði fimmta mark Bayern á 52. mínútu og þar við sat.
Lokatölur 5-0 og Bayern með örugga forystu á Dortmund sem heimsækir Samúel Kára Friðjónsson og félaga hans í Paderborn 07 á morgun.