Íslensk erfðagreining heldur fræðslufund í dag klukkan 17 um baráttuna við Covid-19 og hvers sé að vænta í nánustu framtíð miðað við bestu vitneskju um sjúkdóminn. Á meðal þeirra sem flytja erindi á fundinum eru Alma D. Möller landlæknir, Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Fundinum verður streymt beint hér á Vísi í gegnum Facebook-síðu Íslenskrar erfðagreiningar.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
Alma D. Möller landlæknir ætlar að fjalla um hin mörgu andlit COVID-19, einkenni sjúkdómsins, faraldurinn, viðbrögð Íslands og viðbrögð annarra þjóða.
Agnar Helgason mannerfðafræðingur fjallar um ættartré og ferðasögu veirunnar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ætlar að fjalla um rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar í erindi sem nefnist Hversu víða fór veiran.
Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar LSH fjallar um meðferð Covid-sjúklinga á Íslandi.
Þórólfur Guðnason veltir upp nánustu framtíð í erindi sem hann nefnir Leiðir út úr Covid.
Gestum verður gefinn kostur á að spyrja fyrirlesarana spurninga að erindum loknum.
Fundurinn fer fram í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar. Húsið opnar um 30 mínútum fyrir fundinn en boðið er upp á kaffiveitingar í anddyri.
Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Í einum af þremur sölum þar sem fundurinn er haldinn er tveggja metra fjarlægð milli stóla og geta þeir sem vilja gæta sérstakrar varúðar sest þar. Fólki er bent á að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti.