„Þetta hefur gert gífurlegan gæfumun fyrir mig,“ segir Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, sem hefur nýtt sér aðstoð hugarþjálfara til að ná betri árangri á vellinum og er hæstánægður með afraksturinn.
Guðlaugur Victor hefur leikið vel með liði Darmstadt í þýsku 2. deildinni og er með liðinu í baráttu um að komast upp í efstu deild. Síðasta haust stimplaði hann sig inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins og spilaði fjóra síðustu leikina í undankeppni EM. Þessi 29 ára gamli leikmaður er því í flottum málum og þakkar það að hluta vinnu með hugarþjálfara:
„Þetta getur verið allt frá því að tala um daginn og veginn eða að tala um allt sem við kemur fótboltanum. Við tölum saman tvisvar í viku og það eru alltaf mismunandi umræðuefni. Þetta hefur klárlega hjálpað mér með ákveðna hluti sem hafa verið að trufla mig í hausnum á mér, varðandi frammistöðu og bara allt sem að fylgir þessu, neikvætt og jákvætt. Maður fær ákveðin verkfæri til að vinna með hausinn á sér,“ sagði Guðlaugur Victor við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag. Hann kveðst ætla að vinna með hugarþjálfara út ferilinn:
„Við erum með sömu rútínu viku eftir viku. Ég get bara talað fyrir sjálfan mig og fyrir mig hefur þetta gert gífurlegan gæfumun. Það var margt í gangi utan fótboltans sem að ég vil ekki fara út í í smáatriðum, en það helst mikið í hendur að líði manni vel í lífinu þá spilar maður betur. Það var margt í gangi plús það að ég var að skipta um lið og læra á nýja menningu og nýtt tungumál, ekki það að ég hafi ekki prófað það áður. Þetta var bara tími sem að ég ákvað að kýla á að prófa að vinna með einhverjum og ég sé ekki eftir því. Ég mun gera það þangað til ég legg skóna á hilluna, klárlega.“
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.