Fjórir létust eftir að herþyrla fórst í Chukotka í norðausturhluta Rússlands í nótt. Þyrlan var í eigu rússneska hersins og hrapaði á flugvelli nærri bænum Anadyr.
„Það voru þrír áhafnarmeðlimir og einn flugvirki um borð. Allir fjórir létust,“ segir ríkisstjórinn Roman Kopin á Instagram-síðu sinni.
Rússneskir fjölmiðlar segja að unnið hafi verið að viðgerð á þyrlunni, en þyrlan fórst í miðju reynsluflugi.
Þyrlan var af gerðinni Mi-8. Um er að ræða annað mannskæða þyrluslysið hjá rússneska hernum á innan við viku, en önnur þyrla af gerðinni Mi-8 fórst nærri Klin, um 90 kílómetrum frá Moskvu þann 19. maí síðastliðinn. Þá fórust allir þrír sem voru um borð.