Tveir kennarar í Lindaskóla í Kópavogi áttu samskipti við einstakling sem var í skólanum í tvo daga. Sá fékk þær niðurstöður um helgina að hann væri einn þeirra sem væri með kórónuveirusmit.
Guðrún G. Halldórsdóttir, skólastjóri í Lindaskóla, segir í tölvupósti til foreldra að hinn smitaði hafi ekki átt náin samskipti við nemendur eða aðra starfsmenn en fyrrnefnda tvo kennara.
Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra hefur haft málið til skoðunar og niðurstaða þeirra er sú að ekki þurfi að senda fleiri í sóttkví skólanum vegna þess. Þriðji kennarinn var á skíðum í Austurríki og fór í sóttkví um leið og hann kom heim.
„Við störfum samkvæmt fyrirmælum og leiðbeiningum frá Sóttvarnarlækni og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Þar er hópur fólks að störfum við að meta aðstæður í hverju máli og rekja samskipti við þá sem gætu verið útsettir. Í þessu máli sem öðrum hafa yfirvöld brugðist hratt og örugglega við,“ segir Guðrún.
Um fimm hundruð nemendur eru í Lindaskóla.
Sóttkví hafa áhrif á skólastarf víða á suðvesturhorninu. Meðal annars í Borgarholtsskóla og Fjölbrautarskóla Suðurlands þar sem komið hefur fram að kennarar séu í sóttkví.