Ráðamenn í Bretlandi og New York tilkynntu nú síðdegis að núgildandi samkomubönn yrðu framlengd. Utanríkisráðherra Breta segir að þarlendar takmarkanir muni gilda í þrjár vikur til viðbótar en ríkisstjóri New York framlengdi útbreiðsluspornandi aðgerðir ríkisins um mánuð.
Dominic Raab sagði þó að vísbendingar væru um að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til í Bretlandi, ekki síst félagsforðun og samkomutakmarkanir, hafi borið árangur. Engu að síður væri það mat ráðgjafa ríkisstjórnarinnar að gögnin væru ófullnægjandi og oft misvísandi, ekki bætti heldur úr skák að á sumum sviðum þjóðlífsins færi smitum fjölgandi.
„Okkur hefur ekki tekist að fækka nýsmitum eins og við höfðum vonað,“ sagði Dominic Raab. Allar breytingar sem gerðar yrðu á takmörkununum myndu auka líkurnar á aukinni útbreiðslu, rétt eins og fleiri dauðsföllum. Af þeim sökum teldu stjórnvöld á Bretlandi rétt að framlengja núverandi aðgerðir um þrjár vikur sem fyrr segir.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, sagði að það væri í höndum sérfræðinga að ákveða hvenær hægt væri að aflétta höftum í ríkinu. Ákvörðunin mætti hvorki byggja á stjórnmálalegum hagsmunum eða tilfinningalegum rökum. „Gögn og vísindi. Við erum að tala um mannslíf hérna,“ segir Cuomo.
Það væri mat umræddra sérfræðinga að réttast væri að framlengja núgildandi samkomuhamlanir í ríkinu, sem hefur orðið verst úti í Bandaríkjunum. Þær munu því gilda til 15. maí hið minnsta.