Stjórnvöld á Ítalíu hafa nú sett hátt í sextán milljónir íbúa í sóttkví til að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Strangt ferðabann hefur tekið gildi í Lombardy-héraði á Norður-Ítalíu og í fjórtán sýslum í mið- og norðurhluta landsins.
Þessi ákvörðun stjórnvalda hefur áhrif á ríflega fjórðung allra Ítala sem er nú bannað að ferðast án sérstaks leyfis frá yfirvöldum.
Sjá einnig: Ætla að loka Lombardyhéraði
Skólum, sundlaugum, íþróttasölum og skíðasvæðum verður lokað og verða allar samkomur bannaðar, bæði á opinberum stöðum og í einkarými, segir Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Aðgerðirnar munu standa til 3. apríl næstkomandi.
Tilskipunin kemur í kjölfar þess að greint var frá mikilli fjölgun veirusmita í gær en ekkert annað Evrópuríki hefur þurft að glíma við annan eins smitfjölda. Kórónuveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómum hefur náð mikilli útbreiðslu í landinu frá því að fyrsta smitið greindist þar í lok janúar.
Yfir 230 eru nú sagðir hafa látist á Ítalíu vegna veirunnar og hækkaði sú tala um meira en 36 á einum sólarhring. Í gær fjölgaði staðfestum smitum í landinu um 1.200 og hafa minnst 5.883 smit nú verið greind.