Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir Darmstadt 98 er þýska B-deildin fór aftur af stað eftir að hafa verið frestað vegna kórónufaraldursins. Liðið tapaði 2-0 gegn Karlsruher SC á útivelli í dag.
Guðlaugur hóf leikinn á miðri miðju Darmstadt í leikkerfinu 4-5-1 en tókst ekki að koma í veg fyrir tap sinna manna. Staðan var markalaus í hálfleik en í síðari hálfleik skoruðu Philip Hoffmann og Marvin Wanitzek fyrir heimamenn og þar við sat.
Keine Punkte für die #Lilien beim Re-Start in Karlsruhe. #KSCSVD pic.twitter.com/C7Sv1ZaDwy
— SV Darmstadt 98 (@sv98) May 16, 2020
Eftir tap dagsins er Darmstadt í sjöunda sæti með 36 stig þegar 26 umferðum er lokið. Er liðið níu stigum frá öðru sæti sem gefur sæti í þýsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Guðlaugur er eini Íslendingurinn í eldlínunni í dag en Alfreð Finnbogason er á meiðslalistanum hjá Augsburg og þá eru þeir Samúel Kári Friðjónsson og Rúrik Gíslason fjarri góðu gamni. Samúel Kári er á mála hjá úrvalsdeildarliði Paderborn 07 sem mætir Fortuna Dusseldorf síðar í dag.
Rúrik er sem fyrr samningsbundinn Sandhausen í B-deildinni en liðið tapaði 3-1 fyrir Erzgebirge Aue á útivelli í dag.