Sunnanátt verður eftir hádegi í dag, páskadag. Víða vindur á bilinu 8-15 metrar á sekúndu, en um 15-20 á norðanverður Snæfellsnesi þegar tekur að kvölda. Þau sem hyggja á ferðalög á morgun, annan í páskum, eru hvött til að fylgjast vel með veðurspám.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar í dag. Þá segir að sunnanáttinni komi til með fylgja örlítil súld eða rigning á vesturlandi. Hins vegar megi búast við björtu veðri í allan dag á Norðaustur- og Austurlandi. Hitinn á bilinu 0 til 5 stig suðvestanmegin á landinu, en frost á bilinu 0 til 5 stig norðaustanmegin.
Í nótt tekur svo að hvessa norðan- og norðvestantil á landinu. Stafar það af lægð sem fer fram hjá landinu um Grænlandssund og má gera ráð fyrir vindi allt að 25 metrum á sekúndu þar um slóðir í fyrramálið. Síðar um daginn hvessir einnig á Norðausturlandi. Hvassviðrinu gæti þá fylgt rigning sunnan- og vestanlands. Hitinn verður á bilinu 5 til 10 stig, en hlýjast á Norðausturlandi. Seint annað kvöld má búast við éljum vestantil, auk þess sem kólnar lítillega.
Rétt þykir að taka fram að þótt þau sem hyggi á ferðalög um páskana séu hvött til að fylgjast með veðurspám hefur almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra beint þeim tilmælum til fólks að halda ónauðsynlegum langferðalögum, til að mynda ferðum í sumarbústaði, í lágmarki. Er það gert með það fyrir augum að draga úr mögulegu álagi á heilbrigðiskerfið, sem nú þegar mæðir mikið á vegna útbreiðslu kórónuveirunnar Covid-19 hér á landi. Hefur fólki sérstaklega verið bent á að ferðast innanhúss.