Hinn 38 ára gamli Zlatan Ibrahimović mætti á æfingu með sænska liðinu Hammarby en Zlatan er sem stendur leikmaður AC Milan á Ítalíu.
Eftir að kórónaveiran skall á Ítalíu ákvað Zlatan að fara til Svíþjóðar með fjölskyldu sína. Þar í landi mega knattspyrnulið æfa og jafnvel spila æfingaleiki. Því ákvað Zlatan að skella sér á æfingu með Hammarby en hann keypti hlut í félaginu seint á síðasta ári.
Zlatan tränade med Hammarby: Det är kvalitet https://t.co/7Zq136VBho pic.twitter.com/QvZBGlufqB
— Sydsvenskan Sporten (@SydisSporten) April 9, 2020
Jesper Jansson, yfirmaður íþróttamála hjá Hammarby, sagði í viðtali við Sydsvensken að Zlatan hefði viljað komast á æfingu með bolta. Það hefði því legið beint við að leyfa honum að æfa með Hammarby.
Jansson sagði að AC Milan hefði gefið grænt ljós og þó Zlatan hafi verið með á æfingunni þá hafi hann nánast verið farinn að þjálfa þegar hún var á enda.
Hammarby byrjar að æfa af fullum krafti á mánudag skv. Jansson og mögulegt er að Zlatan snúi aftur. Hvort hann spili með liðinu verður að koma í ljós, samningur hans við AC Milan rennur út í sumar en Zlatan hefur gefið til kynna að hann muni í kjölfarið yfirgefa ítalska félagið.
Framherjinn Aron Jóhannsson gekk í raðir Hammarby á síðasta ári. Þessi fyrrum leikmaður Fjölnis og bandaríska landsliðsins á enn eftir að finna netmöskvana en hann hefur verið einkar óheppinn með meiðsli undanfarin ár.
Beginning of the decade vs end of the decade pic.twitter.com/7iHrGICxJh
— Aron Jóhannsson (@aronjo20) December 30, 2019
Hammarby endaði aðeins stigi á eftir meisturum Djurgården á síðustu leiktíð og ljóst að Zlatan myndi gefa liðinu góða möguleika á að landa sínum fyrsta meistaratitli síðan 2001.