Erlent

Takmarkanir vegna kórónuveirunnar taldar hafa komið í veg fyrir stórslys

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að aðeins tveir bílar hafi ekið eftir brúnni þegar hún hrundi.
Talið er að aðeins tveir bílar hafi ekið eftir brúnni þegar hún hrundi. slökkvilið ítalíu

Tveir ökumenn sluppu með minniháttar meiðsl eftir að brú sem þeir óku yfir á norðanverðri Ítalíu hrundi til grunna í dag. Þar eru fáir á ferli sökum kórónuveirunnar og meðfylgjandi ferðatakmarkana og er það talið hafa komið í veg fyrir stórslys, enda er vegurinn fjölfarinn alla jafna.

Annar ökumaðurinn er sagður hafa fengið í sig brot úr brúnni. Hann var fluttur á sjúkrahús með þyrlu en eru meiðsl hans sögð smávægileg. Hinum tókst að klifra af sjálfsdáðum út úr bíl sínum og er sagður heill heilsu, að frátöldu andlegu uppnámi.

Vegfarendur höfðu kvartað undan ástandi brúarinnar og sögðu sig hafa séð sprungur í brúnni eftir óveður í nóvember síðastliðnum. Fulltrúar þarlendrar vegagerðar gerðu við brúnna og var hún talin fyllilega örugg. Bæjarstjóri í nálægu sveitarfélagi segist þó hafa haft sínar efasemdir og sent þrjú bréf til veghaldara um bágt ástand brúarinnar í aðdraganda hrunsins.

Brúarhrun á Ítalíu hafa reglulega ratað í fréttirnar á síðustu árum, sem rakin eru til bágs ástand vegakerfisins og lítils viðhalds. Þannig létust 43 þegar brú í Genóa hrundi í ágúst árið 2018.

Breska ríkisútvarpið tók saman meðfylgjandi myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×