Búið er að hlaða niður smitrakningaforriti landlæknis í 115 þúsund símtæki. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.
Hún kvaðst vera þakklát fyrir góðar viðtökur almennings. Nærri 75 þúsund manns höfðu sótt forrið síðasta föstudag, daginn eftir að það varð aðgengilegt.
Rakningaforritinu, sem ber nafnið Rakning C-15, er ætlað að hraða smitrakningavinnu hér á landi þegar einstaklingur greinist með kórónuveiruna.

Þetta gerir forritið með því að vista ferðir fólks í tvær vikur og geyma þær með öruggum hætti í símanum. Ef smit kemur upp getur Smitrakningateymi sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra óskað eftir því að fá aðgang að staðsetningargögnunum.
Smitrakningateymið hefur unnið hörðum höndum að því að rekja kórónuveirusmit hér á landi undanfarnar vikur. Verkið er torsótt enda þarf að ræða við smitaða og biðja þá um að rifja upp hvar þeir hafa verið og hverja þeir hafa verið í samskiptum við.
Með gögn úr forritinu til hliðsjónar er vonast til þess að að það reyni minna á hverfult minni fólks í þessum aðstæðum. Þá eru einstaklingar sagðir líklegri til þess að geta rifjað upp hverjir voru á vegi þeirra þegar það veit hvar það var verið staðsett.
Bæði er hægt að nálgast forritið Rakning C-19 fyrir iPhone og Android-síma í App Store og Play Store. Til stendur að senda skilaboð í alla síma á landinu með tengil á forritið þar sem fólk verður hvatt til þess að sækja það.