Alls hafa greinst 1.417 einstaklingar með kórónuveiruna hér á landi en af þeim hafa 430 náð bata samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landspítalans. 1.017 einstaklingar eru smitaðir að svo stöddu og eru í einangrun. Af þeim liggja fjörutíu inni á Landspítala.
Nú liggja tíu sjúklingar með COVID-19 á gjörgæslu og átta eru í öndunarvél. Fjórtán sjúklingar á Landspítalanum eru í sóttkví en þrjátíu og sex sjúklingar sem greindir hafa verið með kórónuveiruna hafa verið útskrifaðir af Landspítala.
Í dag eru 128 starfsmenn Landspítalans í sóttkví og þrjátíu í einangrun. Þá eru 921 fullorðnir einstaklingar í eftirliti hjá sérstakri COVID-19 göngudeild og 103 börn. Fjögur hundruð og þrjátíu einstaklingum hefur batnað af COVID-19 sjúkdómnum og þrír látist á Landspítala, auk ástralska ferðamannsins sem lést á Húsavík um miðjan mars.