Enska knattspyrnufélagið Liverpool, efsta lið úrvalsdeildarinnar, hefur ákveðið að senda hluta starfsmannahóps síns í leyfi nú þegar algjört fótboltahlé er í Englandi vegna kórónuveirufaraldursins.
Ekki er um að ræða leikmenn Liverpool heldur annað starfsfólk sem starfar fyrir félagið. Fólkið mun fá 80% launa sinna í gegnum neyðarúrræði stjórnvalda og Liverpool mun bæta því upp mismuninn. Newcastle, Tottenham, Bournemouth og Norwich hafa farið sömu leið.
Óvíst er hvenær keppni í ensku úrvalsdeildinni getur hafist að nýju.
Heilbrigðismálaráðherrann Matt Hancock sagði á dögunum að leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar ættu að hjálpa til og taka á sig launalækkun. Ensku úrvalsdeildarfélögin hafa síðan sagst ætla að biðja leikmenn um að lækka um 30% í launum til að vernda störf. Talsmenn úrvalsdeildarinnar og leikmannasamtaka munu funda um málið í dag.