Formaður Eflingar hefur óskað eftir því að sáttasemjari taki við stjórn á viðræðum í kjaradeilu Eflingarfólks sem starfa hjá fyrirtækjum innan Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK) gagnvart Samtökum atvinnulífsins.
Um 300 félagsmenn Eflingar starfa í skólum og leikskólum SSSK, að því er segir í tilkynningu frá Eflingu. Samningar þeirra hafi verið lausir frá því í mars í fyrra. Samtök atvinnulífsins hafi ekki svarað ítrekuðum óskum Eflingar um viðræður frá því í apríl.
„Stéttarfélagið sér ekki aðra leið færa til að koma gangi á viðræðurnar eftir að hafa ítrekað óskað eftir því við SA að haldinn verði samningafundur í deilunni,“ segir í tilkynningunni um ákvörðunina um að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.
Verkfalli Eflingarfólks sen starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerðisbæ var aflýst eftir að skrifað var undir kjarasamningi seint á sunnudagskvöld.