Guðjón Valur Sigurðsson lék sinn fyrsta leik fyrir íslenska landsliðið á stórmóti gegn Rússum á EM 2000.
Hann rifjaði upp þennan fyrsta stórmótsleik sinn af 138 með Henry Birgi Gunnarssyni í Seinni bylgjunni í gær. Guðjón Valur fékk einföld skilaboð frá Þorbirni Jenssyni, þáverandi landsliðsþjálfara, þegar hann kom inn á.
„Ég held að Lev Voronin hafi verið í horninu, mjög góður hraðaupphlaupsmaður. Hann sagði þín ábyrgð er að þessi maður skori ekki úr hraðaupphlaupi. Ég fór ekki einu sinni niður í hornið. Ég var svo stressaður og vildi ekki gera mistök,“ sagði Guðjón Valur.

Við hlið hans í stöðu vinstri skyttu í þessum fyrsta stórmótsleik var stórskyttan Róbert Julian Duranona.
„Á einhverri æfingu sagði hann að hann væri ekki mikið að leggja nöfn á minnið. Ég var alltaf „my friend,“ sagði Guðjón Valur.
„Hann kom einhvern tímann til mín og sagði: my friend, I pass you, you score. You pass me, I shoot. Okay. Það var bara taktíkin okkar á milli. Það var æðislegt fyrir mig að spila við hliðina á Julian á þessum tíma.“
Guðjóni Val tókst ekki að skora í þessum fyrsta stórmótsleik sínum sem Ísland tapaði, 23-25. Íslendingar enduðu í 11. sæti á EM 2000 sem var fyrsta stórmót Guðjóns Vals með landsliðinu af 22.
Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.