Fleiri en 30.000 manns eru nú látnir á Ítalíu vegna nýs afbrigðis kórónuveiru samkvæmt nýjustu tölum yfirvalda. Mannskaðinn á Ítalíu er sá þriðji mesti í heiminum og sá mesti innan Evrópusambandsins.
Greint var frá 243 nýjum dauðsföllum í dag og er heildarfjöldinn því nú 30.201. Aðeins í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa fleiri látist í faraldrinum samkvæmt opinberum tölum. Alls hafa 217.185 staðfest kórónuveirusmit greinst í landinu og virk smit eru nú 87.961, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Hægst hefur á fjölgun smita og dauðsfalla að undanförnu og hafa stjórnvöld byrjað að slaka á takmörkunum. Ítalía var fyrsta landið í Evrópu til að koma á útgöngubanni þegar faraldurinn byrjaði að breiðast út á norðanverðu landinu í febrúar.