Búist er við að það snjói á landinu austanverðu í dag og fyrir norðan fram á nótt. Í gærkvöldi hvessti úr norðaustri og í nótt fór að rigna sunnan- og suðaustantil.
Hitinn verður í kringum frostmark fyrir norðan, en tvö til sjö stig syðra. Suðvestlæg átt á morgun, 5-13, en 10-15 norðantil. Él eða slydduél á Suðvestur- og Vesturlandi, en annars bjart með köflum og þurrt að mestu.
Á morgun snýst í suðvestlæga átt, 5-13 metrar á sekúndu en 10-15 norðantil, með éljum eða slydduéljum suðvestan- og vestanlands en útlit er fyrir bjart veður fyrir norðan.
„Á þriðjudag, gamlársdag, er síðan útlit fyrir suðvestlægar áttir, lágskýjað og rigningu á Suðvestur- og Vesturlandi. Á móti eru líkur á fremur björtu og þurru veðri norðaustantil. Búast má við að suðlægu áttirnar og rigningin fyrir sunnan vari út nýársdag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag: Vestan og síðar suðvestan 5-13 m/s og dálítil él eða slydduél, en léttir til á austurhelmingi landsins. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust við suður- og vesturströndina síðdegis.
Á þriðjudag (gamlársdagur): Sunnan og suðvestan 8-15 og rigning eða súld, en þurrt að kalla norðaustantil á landinu. Hiti 2 til 7 stig.
Á miðvikudag (nýársdagur): Allhvöss eða hvöss suðlæg átt, en norðastlæg norðvestantil. Rigning eða slydda í öllum landshlutum. Hiti 1 til 6 stig.
Á fimmtudag: Gengur í allhvassa eða hvassa norðanátt með snjókomu norðantil á landinu, en éljum syðra fram eftir degi. Kólnar mikið í veðri, frost 4 til 10 stig.
Á föstudag: Minnkandi norðvestanátt með éljum á Norður- og Austurlandi, en bjart sunnan heiða. Kalt í veðri.
Á laugardag: Útlit fyrir suðlæga átt og rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Hiti 2 til 7 stig.