Björgunarsveitarmenn á Siglufirði eru klárir í slaginn verði þeir kallaðir í útkall vegna veðurofsans sem nú fer yfir landið. Þeir hafa nú þegar farið í eitt útkall, til þess að koma félaga þeirra í björgunarsveitinni til aðstoðar er bíll hans rann út af veginum fyrr í morgun.
Rætt var við Jón Hrólf Baldursson, rakara og björgunarsveitarmann á Siglufirði í Bítinu á morgun um stöðu mála á Siglufirði. Í miðju viðtali kom í ljós að hann var utan vegar rétt fyrir utan bæinn, að bíða eftir félögum sínum í björgunarsveitinni Strákum til þess að aðstoða sig.
Veðurvaktin: Aftakaveður gengur yfir landið
„Ég er annars að bíða eftir strákunum núna. Ef þeir eru að hlusta þá mega þeir drífa sig. Ég fauk út af“ sagði Jón Hrólfur hlæjandi í samtali við Bítið í morgun.
Faukstu út af?
„Ég rann út af hérna. Var á leiðinni með hundana að hlaupa og ég rann út af og kemst ekki upp á veginn aftur.“
Þú ert fastur?
„Já, það er mest að gera hjá þeim að hjálpa mér held ég,“ sagði Jón Hrólfur léttur í bragði og átti þar við félaga sína í björgunarsveitinni. Í miðju viðtali mátti svo heyra bílflaut og voru þá félagar hans í Strákum komnir til að aðstoða Jón Hrólf en hlusta má á viðtalið hér fyrir neðan.
„Rosalega blautt“
Magnús Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Stráka, segir í samtali við Vísi að vel hafi gengið að koma Jóni Hrólfi aftur upp á veginn og ekkert tjón varð.
„Hann flaut upp og rann út af,“ segir Magnús en hann segir að mjög blautt sé í veðri á Siglufirði þessa stundina.
„Það er rosalega blautt. Það er farið að hvessa. Krapi á veginum og rok,“ segir hann um veðrið.
Magnús og tveir aðrir björgunarsveitarmenn verða til taks á Siglufirði í dag auk þess sem að fleiri eru reiðubúnir að svara kallinu verði nauðsyn á því. Hann reiknar ekki með öðru en að veðri versni eftir því sem á líður á daginn.
„Ég held að það eigi bara eftir að auka vindinn og það verður mjög hvasst.“