Icelandair stefnir að ákvörðun um þotukaup fljótlega á nýju ári. Einn möguleikinn sem félagið skoðar er að skipta alfarið yfir í Airbus-þotur. Þetta kom fram í viðtali við forstjóra Icelandair í fréttum Stöðvar 2.
Óvissan vegna kyrrsetningar MAX-vélanna leiddi til þess að Icelandair frestaði í haust ákvörðun um kaup á nýjum þotum sem gætu leyst Boeing 757-vélarnar af hólmi á lengri flugleiðum.
„En við stefnum á að taka þá ákvörðun fljótlega á nýju ári, - allavega fyrri hluta ársins 2020,“ segir forstjórinn, Bogi Nils Bogason.

Icelandair og forverar þess hafa til þessa aldrei keypt nýjar þotur frá öðrum framleiðanda en Boeing. Því vakti sú yfirlýsing forstjóra Icelandair athygli síðastliðið vor að langdrægar vélar af gerðinni Airbus A321 hentuðu leiðakerfi félagsins best, eins og staðan væri núna.
Sjá einnig hér: Forstjóri Icelandair segir Airbus bjóða besta arftaka Boeing 757
Félagið skoðar þrjá kosti, að sögn Boga: Halda áfram með svipaðan flota og það er með núna; kaupa Airbus A321 LR og reka þær samhliða MAX-vélunum; og loks að skipta alfarið yfir í Airbus.
„En það mun taka ákveðinn langan tíma, ef við förum þá leið. Þannig að það eru þessar þrjár sviðsmyndir og tvær af þessum sviðsmyndum þýða Airbus inn í flotann.“

Þess er skemmst að minnast að bandaríska flugfélagið United Airlines ákvað fyrir tveimur vikum að leita í smiðju Airbus og pantaði fimmtíu Airbus A321 XLR sem arftaka hinna öldruðu 757-véla, en framleiðslu þeirra var hætt fyrir fimmtán árum.
Sjá einnig hér: United Airlines snýr baki við Boeing og kaupir fimmtíu Airbus-þotur
Bogi segir 757-vélarnar þó enn virka mjög vel í leiðakerfi Icelandair og þjóna fyrirtækinu vel.
„En samt sem áður þurfum við að fara að taka ákvörðun fljótlega um hvaða vélar taka við af þeim.“
En hvað með breiðþotur?

„Við erum með fjórar breiðþotur í flotanum í dag, 767-vélar, og við stefnum á að nota þær áfram. Þetta flotaverkefni, sem við erum að vinna núna, snýr í raun eingöngu að hinum vélunum, „narrow-body“ eins og við segjum. Þannig að við erum ekki að skoða frekari kaup á breiðþotum, eins og staðan er núna,“ svarar forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: