Bjarki Már Elísson og félagar í Lemgo eru komnir í 8-liða úrslit þýsku bikarkeppninnar í handbolta eftir sigur á Ludwigshafen, 23-26, í kvöld.
Bjarki hefur farið á kostum með Lemgo í vetur og er næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni.
Landsliðshornamaðurinn var nokkuð rólegur í tíðinni í kvöld og skoraði þrjú mörk úr sex skotum.
Bobby Schagen var markahæstur í liði Lemgo með fimm mörk. Fjögur þeirra komu af vítalínunni.
Lemgo leiddi allan leikinn þótt munurinn á liðunum væri aldrei mikill. Staðan í hálfleik var 9-12, Lemgo í vil.
Úrslitahelgi bikarkeppninnar fer fram 4. og 5. apríl 2020.
