Bloomberg hefur undanfarnar vikur legið undir feldi en hefur nú tekið ákvörðunina um að bjóða sig fram til þess að sigra Donald Trump og endurreisa Bandaríkin eins og segir á vefsíðu Bloomberg.
„Bandaríkin ráða ekki við fjögur ár í viðbót af siðlausum og glannalausum stjórnarháttum Trump. Hann ógnar landi okkar og gildum. Verði hann endurkjörinn er óvíst hvort að við munum nokkru sinni jafna okkar á þeim skaða,“ skrifaði Bloomberg.

Bloomberg hafði undanfarið gefið það til kynna að hann hygðist bjóða sig fram til forseta. Hafði hann til að mynda skilað inn tilskyldum gögnum til Alríkiskosningastofnunnar, skráð sig til leiks í þremur forkosningum Demókrata og sett til hliðar gríðarstóran auglýsingasjóð. Talið er að í sjóðnum sé um 30 milljónir dala. AP greinir frá.
Sjá einnig: Segir Bloomberg tilbúinn til þess að eyða „hverju sem er“ til að sigra Trump
Tíu vikur eru til stefnu þangað til að fyrstu forkosningar flokksins fara fram í Iowa. Þeir frambjóðendur sem þegar eru á kjörseðlunum fyrir Demókrata virðast ekki vera hrifnir af hugmyndum Bloomberg um forsetaframboð og því síður eru þeir hrifnir af gríðarlegum auglýsingakaupum milljarðamæringsins.
„Ef þú getur ekki byggt upp grasrótarhreyfingu fyrir framboð þitt áttu ekkert erindi að bjóða þig fram til forseta,“ sagði Bernie Sanders sem sakaði Bloomberg um að ætla sér að kaupa sér útnefninguna, að því er AP hefur eftir Sanders.
„Hin ríku munu eiga fleiri skó en við, fleiri bíla og hús. En þau fá ekki stærri bita af lýðræðinu,“ sagði mótframbjóðandinn Elizabeth Warren.

Í tilkynningu Bloomberg sem birtist á vef frambjóðandans tíundar hann þann árangur sem náðist í stjórnartíð hans í New York. Þá greinir hann frá sínum helstu stefnumálum, skapa fleiri atvinnutækifæri, tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla Bandaríkjamenn, berjast gegn loftslagsbreytingum og hækka skatta á auðmenn eins og hann sjálfan.
Bloomberg hefur þegar fengið stuðning tveggja borgarstjóra, borgarstjórum Columbia í Suður-Karólínu og Louisville í Kentucky.