„Ég fékk aldrei almennilega stuðning eða fræðslu þannig að ég var einhvern veginn ein í þessu. Ég bara studdi foreldri mitt, sá um það og skammaðist mín hrikalega fyrir það sem gerðist innan veggja heimilisins. Ég bara gerði það og kláraði það en það var alveg hræðilega erfitt,“ segir Sigríður.
Í Kompás lýsir Margrét Lillý Einarsdóttir svipuðum aðstæðum. Að hún hafi verið ein í heiminum, vanrækt og beitt ofbeldi án þess að nokkur í nærumhverfinu á Seltjarnarnesi skipti sér af.

Öll æskan fór í hræðslu og kvíða
Sigríður segir aukna fræðslu fyrir börn minnka skömmina og auka líkur á að þau biðji um aðstoð og það sem er mikilvægara: Að á þau sé hlustað. Mikilvægt sé að fólk grípi inn í og sýni stuðning. Umræðan sé opin um geðsjúkdóma, en ekki um aðstandendur.„Við gleymumst bara. Starf okkar er ótrúlega erfitt, sárt og stórt verkefni. Við þurfum stuðning en við gleymumst og á sama tíma gleymum við sjálfum okkur og fórnum okkar eigin heilsu.
Þá sé vitað að aðstandendur séu líklegri til að þróa með sér geðsjúkdóm.
„Sum hver, sem börn, búum við mikla hræðslu og alltaf í kvíða. Öll æskan mín fór í kvíða og hræðslu og þá er taugakerfið ekki gott eftir æskuna.“
Sigríður hefur því lagt áherslu á það í starfi sínu hjá Geðhjálp að efla fræðslu til barna. Að búið verði til fræðsluefni sem börnin skilji. Ef börnin skilja geðsjúkdóminn, þetta „fullorðinsvandamál“ betur þá sé líklegra að þeim líði betur og viti hvert þau eigi að leita.
Einnig hafi Geðhjálp farið af stað með stuðningshópa. „Þetta er góð byrjun. Ráðgjafatímar, stuðningshópar og fyrirlestrar. Ef við tölum meira um þetta og hvaða áhrif þetta hefur á okkur þá held ég að margt sé unnið.“