Innlent

Skipta út hraðhleðslustöðinni vegna bilunar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Orkuveitan ætlar að skipta út hraðhleðslustöð.
Orkuveitan ætlar að skipta út hraðhleðslustöð. Vísir/Vilhelm

Notendur hraðhleðslustöðvari Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun munu nú þurfa að bíða örlítið lengur noti þeir stöðina því henni á að breyta í hverfishleðslustöð. Breytingin kemur til vegna bilunar.

„Hleðslustöðin við Hellisheiðarvirkjun hefur verið í notkun í mörg ár en því miður bilaði hún nýlega og er nú komið að endurnýjun. Við höfum því ákveðið að endurskoða framboð hleðslumála á svæðinu áður en við tökum næstu skref,“ segir í svari Lilju Bjarkar Hauksdóttur, samskiptastýru Orku náttúrunnar, við fyrirspurn blaðamanns.

Lilja Björk segir að notkun stöðvarinnar  hafi minnkað síðustu misseri samhliða aukinni uppbyggingu hleðsluinnviða bæði í Reykjavík og í Hveragerði. Að auki hafi drægni rafbíla aukist frá því að stöðin var sett upp, en umrædd stöð hafi verið ein af þeim fyrstu sem ON setti upp á sínum tíma.

„Krafan í dag á nýjum staðsetningum er að tengi séu fleiri og aflið sé meira. Því er eðlilegt að við skoðum hvernig við getum best mætt þörfum þeirra sem nýta svæðið og hleðslustöðina við Hellisheiðarvirkjun.“

Einhver órói kann að vera meðal þeirra sem nota stöðina en Lilja Björk segir ON taka vel í allar ábendingar sem berist frá notendum. Henni þykir leitt ef breytingarnar hafa valdið óþægindum og verður þörf á hraðhleðslu endurmetin þegar framtíðarfyrirkomulag verður ákveðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×