Erlent

Allt á floti í Feneyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Markúsartorg er á floti.
Markúsartorg er á floti. AP
Allt er á floti í Feneyjum en vatnshæðin hefur ekki mælst meiri í borginni frá árinu 1966. Á myndum sést hvernig sjór þekur Markúsartorg og íbúar og ferðamenn þurfa að vaða til að komast á milli staða.

Vatnshæðin hefur mest mælst 1,87 metrar yfir meðalhæð, en í frétt BBC segir að einungis einu sinni frá því að skráningar hófust árið 1923 hafi vatnshæðin mælst meiri. Það var árið 1966 þegar vatnshæðin mældist 1,94 metrar yfir meðalhæð.

Sjór hefur einnig flætt inn í Markúsarkirkjuna sjálfa, en það ku vera í einungis sjötta sinn á 1.200 árum sem það gerist. Pierpaolo Campostrini, sem á sæti í stjórn kirkjunnar, segir að fjögur af þeim sex tilfellum hafa átt sér stað á síðustu tuttugu árum.

Alls hafa borist fréttir af tveimur sem hafi látið lífið í flóðunum, á eyjunni Pellestrina. Þannig fékk maður raflost eftir að hafa tengt vatnsdælu á heimili sínu og svo fannst annar maður látinn á eyjunni þar sem látið er rakið til flóðanna.

Borgarstjórinn Luigi Brugnaro segist ætla að lýsa yfir neyðarástandi og varað við að flóðin muni skilja eftir sig varanlegar skemmdir. Biðlar hann til Ítalíustjórnar um aðstoð og sakar loftslagsbreytingar um ástandið.

Síðast flæddi yfir Markúsartorg í október 2018.

Getty
Getty
EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×